Jarðgerð er niðurbrot á lífrænum úrgangi við loftháðar aðstæður þar sem hitakærar örverur melta úrganginn þannig að úr verður moldarkenndur massi, svokölluð molta. Moltuna er síðan hægta að nota sem jarðvegsbæti, til landfyllingar eða jafnvel sem áburð. Í jarðgerðarstöð Moltu ehf fer hiti í jarðgerðarblöndunni yfir 70°C sem gerir það að verkun að skaðlegar batkeríur sem kunna að vera í úrganginum drepast.
Til Moltu kemur sláturúrgangur, fiskúrgangur, lífrænn heimilsúrgangur, timbur- og trjákurl, pappír, gras og tað, sem er jarðgert í stöðinni.
Tækjabúnaður í sjálfa jarðgerðarstöðina kemur frá finnska fyrirtækinu Preseco og samanstendur m.a. af sex stórum tromlum með tilheyrandi móttökubúnaði, færiböndum og sniglum. Samkvæmt upplýsingum forráðamanna Preseco er jarðgerðarstöð Moltu sú stærsta í Evrópu með þessari tækni við jarðgerð – þ.e. tromluaðferðinni svokölluðu. Í þessum tromlum hitnar jarðgerðarblandan og fer hitinn upp í að minnsta kosti 70°C. Að umfangi gæti jarðgerðarblandan rýrnað um sem næst 50% í þessu niðurbrotsferli. Út úr þessu ferli kemur molta, sem þarf að þroskast í um sex mánuði í haugum á þroskunarplani við stöðina.
Framleiðsluferlið
Hráefnið fáum við frá kjötvinnslum, sláturhúsum og smávegis frá fiskvinnslum auk lífræns úrgangs frá heimilum. Allt hráefnið fer í gegnum hakkavél og blandast í framhaldinu við stoðefni, sem er að langmestu leiti timburkurl úr úrgangstimbri sem fellur til á okkar svæði. Auk timburkurlsins blöndum við samanvið pappír úr grenndargámum á Akureyri, sem við tætum á staðnum. Þessi blanda fer síðan inní stórar jarðgerðartromlur og kemur út úr þeim 12 til 14 dögum síðar. Efninu er síðan mokað í galta eða múga, verkunin heldur áfram úti og eftir 4 til 6 mánuði er moltan tilbúin til notkunar. Moltuna má nýta á land sem síðan er unnið til túnræktar, kornræktar eða til ræktunar einærra fóðurjurta, þar sem borið er á landið áður en jarðvinnsla fer fram þannig að moltan gangi niður í jarðveginn.