Lífrænn áburður og jarðvegsbætandi efni.
Kraftmolta verður til þegar lífrænn úrgangur rotnar og breytist í það sem á íslensku hefur verið nefnt safnhaugamold. Þegar hún er fullstaðin eða rotnuð er hráefnið orðið óþekkjanlegt, dökkt að lit, laust í sér og með lítilsháttar sætulykt.
Kraftmolta er ólík gróðurmold að því leyti að hún inniheldur ekki ólífræn efni í neinu magni, (t.d. sand) eins og moldin gerir. Því er um að ræða ræktunarefni sem inniheldur mun meira af nægtarefnum en moldin og getur því kallast áburðargjafi eða jarðvegsbætir, en getur þó ekki komið alveg í stað áburðar.
Molta er næringarrík og eykur starfsemi allra lífvera í jarðveginum.
Í framleiðsluferlinu hjá okkur, hitnar efnið það mikið (yfir 70°), að varan telst hrein af óæskilegum sýklum og gerlum. Illgresisfræ og þess háttar ósómi fyrirfinnst ekki í Moltunni.
Hvar og hvernig?
Rétt er að hafa í huga við notkun Kraftmoltu, að hún er nær því að vera áburður en jarðvegur. Hún er sterk og best er að blanda henni við moldina, líkt og gert væri við húsdýraáburð. Bein snerting við rætur plantna er ekki æskileg.
Nota má moltuna til dreifingar á gróðurlendi, til uppgræðslu eða skógræktar á lokuðum svæðum.
Hafa ber í huga takmarkanir samkvæmt reglugerð 674/2017: “Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni – Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. nóvember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl
Dæmi um notkun á moltu frá okkur:
Undir þökur: Efsta lagið er jafnað með moltu. Lagðar hafa verið þökur beint ofaná grófsigtaða Kraftmoltu og það komið vel út.
Á grasflatir: Dreift þunnu lagi að vori eða hausti, gott að blanda hana með sandi þó ekki nauðsynlegt. Hægt að gera með stórvirkum dreifurum á stærri svæði. Heima í garði er best að nota gamla lagið, fötu og góða vettlinga.
Við trjáplöntun og Pottaplöntur: Notað eins og skítur í holuna, og eftir að plantan er klár, settur góður hringur af moltu kringum hana, ca 10-15 cm þykkur.
Bakkaplöntur: Að Steinhólum í Hjaltadal voru gróðursettar bakkaplöntur sumarið 2015, birki og lerki; þannig að í stað tilbúins áburðar var sett molta undir plöntuna (1-2 matskeiðar) og síðan ca hnefafylli ofaná. Þessar plöntur koma sprækar og líflegar undan fyrsta vetri. Á Hólasandi var gerð tilraun á vegum Skógræktar Ríkisins og Landgræðslunnar þar sem bakkaplöntum var plantað í ákaflega rýran jarðveg. Sjá nánari umfjöllun í eldri frétt á síðunni okkar.
Við sáningu: Blandað í efsta lagið til helminga en molta er ágæt til að þekja blóma og runnabeð.
Illgresi nær ekki að sá sér í hreina moltu.
Þetta hefur verið gert í Lystigarðinum með ágætum árangri. Umsögn frá forstöðumanni Lystigarðsins á Akureyri: Okkar reynsla af moltunni er bara góð. Hún virkar mjög vel á eldri trjágróður, bæði í beð og á stakstæð tré. Þar höfum við dreift ca 6-7 sm lagi jafnt yfir beðið. Þar með höldum við niðri illgresi í 1-2 ár og næringin dugar einnig í þann tíma í flestum tilfellum. Minna magni er dreyft í fjölæru beðin enda rótarkerfi fjölæringa grynnra og dæmi um að ungar plöntur hafi orðið fyrir eitrun. Í þriðja lagi hefur hún verið notuð lítillega í uppeldi og þá blandað saman við íslenska mold. Hefur það virkað vel á sumarblóm sem plantað er í ker og kassa víðs vegar um garðinn. Lítillega einnig reynt á trjáplöntur í uppeldi (í pottum) sem aukaáburðargjöf, þá sem þunnt lag ofan á potta.
Í uppgræðslu:
Melgerðismelar : Moltan skilar góðum árangri á rýru landi á Melgerðismelum var dreift moltu vorið 2012 og þau svæði sem fengu moltu skáru sig greinilega úr. Sérstaklega varð flugbrautin fallega græn, en hún hafði fengið húsdýraáburð áður.
Í kornrækt:
Tilraun á Þverá: Vorið 2013 var gerð kornræktartilraun á vegum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri , LBHI, í landi Þverár. Niðurstöður sýna aukna uppskeru og mögulegan sparnað á tilbúnum áburði. Frekari tilraunir hafa verið gerðar á vegum Landbúnaðarháskólans á Möðruvöllum í Hörgárdal.
Golfvellir og íþróttasvæði: Dreift var moltu á hluta golfvallarins að Jaðri snemmsumars 2013. Árangurinn var góður og var moltunni blandað til helminga með sandi og dreift á brautirnar haustið 2013. Þetta hefur greinilega virkað vel, því sumarið 2016 var dreift á hluta vallarins aftur.
Af þessu má sjá að molta kemur víða að góðum notum. Það er ekki komin mikil reynsla á hana en þessi upptalning byggir á þeirri sem þó er komin. Þó er hægt að fullyrða að hún er góður jarðvegsbætir og getur nýst sem áburður við vissar aðstæður. Þegar haft er í huga að hráefnið í moltuna er úrgangur sem fyrir örfáum árum var allur urðaður og er það enn víða á landinu. Má því segja að umhverfisvænni vöru sé erfitt að finna.
Hafa ber í huga við lestur þessara leiðbeininga, að þær eru ekki nema að hluta til byggðar á vísindalegum niðurstöðum tilrauna, mest stuðst við reynslu þeirra sem notað hafa vöruna.