Í október síðastliðinn hófst innleiðing söfnunar- og flokkunarkerfis og fyrir lífrænan úrgang frá heimilum á Akureyri. Lífrænn úrgangur sem safnað er frá heimilum er fluttur til jarðgerðar í jarðgerðarstöð Moltu á Þveráreyrum. Úrgangurinn getur því hæglega endað sem gróðurmold eða jarðvegsbætir í blómabeðum, trjálundum og grasflötum bæjarbúa.
Magn flokkaðs úrgangs hefur verið að aukast jafnt og þétt frá því að þessi flokkun hófst og hefur Molta nú þegar tekið á móti 250 tonnum af flokkuðum heimilisúrgangi frá Akureyringum. Í apríl bárust 72.240 kg. til vinnslu hjá Moltu en það jafngildir um 4 kg á íbúa, sem er mjög góður árangur.
Flokkun úrgangsins er til fyrirmyndar og er hann nánast undantekningarlaust í jarðgeranlegnum pokum „Biobags“ sem bæjarfélagið leggur íbúum til. Þennan árangur ber að þakka að í kynningum vegna innleiðingar kerfisins var lögð megin áhersla á að nota eingöngu þessa poka og að plast mætti alls ekki vera í þessum úrgangi. Ekki síður er þetta að þakka góðum viðbrögðum áhugasamra íbúa bæjarins.