Nú í október voru unnin 900 tonn af lífrænum úrgangi og stoðefnum hjá jarðgerðarstöð Moltu. Þrátt fyrir að úrgangur frá sauðfjárslátrun á Húsavík væri 20 tonnum minni en í október 2009 var heildar vinnslan 90 tonnum meiri en árið 2009. Stærstan þátt í auknu magni er aukin vinnsla á fiskúrgangi og vinnsla á lífrænum heimilisúrgangi. Þess ber að geta að meira var einnig notað af stoðefnum, timburkurli og kurluðum garðaúrgangi en í fyrra þegar skortur á stoðefnum olli nokkrum erfiðleikum. Tækjabúnaður verksmiðjunnar réði auðveldlega við þessi 900 tonn enda er afkastageta hans, uppgefin af framleiðanda um 12.000 tonn á ári. Að sögn starfsmanna Moltu, þeirra Birgis Stefánssonar og Valgeirs Antons Þórissonar, eru þetta veruleg umskipti frá þvi í fyrra haust þegar vinnulotur gátu farið yfir 20 tíma.