Áttatíu prósentum af öllum lífrænum úrgangi á Norðurlandi er breytt í moltu. Framkvæmdastjóri Moltu ehf. segir að það sé risastórt framlag til loftslagsmála.
Fyrirtækið tekur á móti lífrænum úrgangi frá sveitarfélögum á Norðurlandi, frá Skagafirði allt austur á Fljótsdalshérað. Einnig kemur úrgangur frá sláturhúsum og kjötvinnslum. Hjá Moltu fer hráefnið í gegnum hakkavél og er blandað saman við stoðefni sem eru timbur og pappír. Eftir blöndunina tekur við niðurbrot og verkun í hálft ár áður en moltan telst tilbúin.
80% af öllum lífrænum úrgangi á Norðurlandi
Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri Moltu segir að sveitarfélög og íbúar á norðurlandi eigi hrós skilið. Hann telur að um 80% af öllum lífrænum úrgangi sem fellur til á Norðurlandi sé ekið til þeirra.
Á síðustu 10 árum hefur því verið tekið risastórt stökk í loftslagsmálum á svæðinu. Frá því Molta hóf starfsemi sína hefur hún tekið á móti rúmlega 63 þúsund tonnum af lífrænum úrgangi sem annars hefði verið urðaður. Með því hefur verið komið í veg fyrir losun á 100.000 tonnum af koltvísýringi sem jafngildir losun allra fólksbíla í Eyjafirði í tvö ár.
Fyrirtæki geti gert betur
Kristján segir að fyrirtækið geti tekið við meiri úrgangi og að á Norðurlandi séu tækifæri til að flokka enn betur. Hann telji að enn sé verið að urða um 5000 tonn af lífrænum úrgangi á ári. Helstu tækifærin séu hjá fyrirtækjum, matvöruverslunum, hótelum og veitingastöðum.
Þá telur hann að fæstar matvöruverslanir flokki lífrænan úrgang. Útrunnar vörur séu urðaðar og hann tekur sem dæmi skyrdós sem fari óopnuð ofan í jörðina. Í staðinn væri hægt að taka vöruna úr umbúðunum, skila lífrænu til þeirra og koma plasti og pappa í réttan farveg.
Ódýrara að urða
Ein af ástæðum þess að fyrirtæki kjósa frekar að urða sé kostnaður. Það er dýrara að skila úrgangi, eða hráefni eins og Kristján kallar það, til Moltu en að urða hann. Hann vonast til að það breytist með komu kolefnisskatts sem er í umræðunni um þessar mundir. Þá telur hann vænlegt til árangurs að einhvers konar hvatar séu fyrir þau fyrirtæki sem sýna ábyrgð fyrir umhverfinu. Það gæti verið hvetjandi þar sem neytandinn geri sér ekki endilega grein fyrir því að sum fyrirtæki borga hærra skilagjald til að koma úrgangi í réttan farveg.